Hlutverk og markmið

Bókasafn Dagsbrúnar er sérfræðisafn á sviði atvinnulífsrannsókna og verkalýðsmála. Safnið er einnig fræðibókasafn í hug-, hag- og félagsvísindum og handbókasafn fyrir ReykjavíkurAkademíuna.

Markmið safnsins er tvíþætt. Annars vegar að halda utan um og gera aðgengilegt, gott safn heimilda um stjórnmála- og atvinnusögu sem og verkalýðsbaráttu íslenskra launamanna að fornu og nýju og þannig styðja við möguleika á rannsóknum á þeim sviðum. Hins vegar að þjóna fræðimönnum, háskólanemum og almenningi sem áhuga hafa á því sviði sem safnkostur safnsins spannar.

 

Safnkostur

Á safninu eru nú á níunda þúsund titlar skráðir og leitarbærir á vefnum Leitir.is. Skráningu upprunalega safnkosts bókasafnsins er að mestu leyti lokið þó að eitthvað af smáprenti og áróðursritum liggi ennþá óskráð. Stofn Bókasafns Dagsbrúnar eru dagblöð, tímarit, bækur og önnur gögn tengd verkalýðshreyfingunni. Safnið spannar þó mun víðara svið og er í reynd alhliða safn um íslensk þjóðfélagsmál á 20. öld.

Þar er t.d. að finna dagblöðin Alþýðublaðið og Þjóðviljann, öll helstu íslensk fréttablöð og tímarit frá ofanverðri 19. öld og fram á 20. öld, Alþingis- og Stjórnartíðindi, auk fjölda fréttabréfa, bæklinga og smáprents frá verkalýðshreyfingu og stjórnmálaflokkum.

Safnið er að stofni til bókasafn Héðins Valdimarssonar, þar er því einnig að finna rit sem voru í eigu foreldra hans, Bríetar Bjarnhéðinsdóttur og Valdimars Ásmundssonar, m.a. safn af 18. aldar prenti.

Stór hluti safnkostsins eru bækur frá 20. öld, almennt safn innlendra og erlendra rita sem bera pólitískri sögu safnsins vitni, þar má t.d. finna heildarverk frumkvöðla marxismans.

Í bókasafninu eru um 3.000 óskráðar bækur, margar þeirra á ensku, þýsku, Norðurlandamálum, rússnesku og esperantó og margar en ekki allar tengdar verkalýðshreyfingu erlendis. Við höfum birt bráðabirgðaskrá yfir þessar bækur á vefsíðu safnsins til að auðvelda fræðimönnum að nota þær. Hægt er að hafa samband við starfsmann safnsins til að skoða bók eða óska eftir að hún verði skráð.

Safnið hefur áhuga á að fá fleiri eintök af gömlum tímaritum tengdum verkalýðshreyfingunni til að fylla göt þar sem tímarit eru óheil. Einnig hefur safnið áhuga á að eignast eintök af útgefnum verkum fræðimanna sem eru félagsmenn ReykjavíkurAkademíunnar.

WordPress theme: Kippis 1.15