Saga Bókasafns Dagsbrúnar
Dagsbrúnarsafnið er rúmlega hálfrar aldar gamalt, og stofn þess er bókasafn Héðins heitins Valdimarssonar. Héðinn var einn af fremstu forystumönnum íslenskrar verkalýðshreyfingar á sínum tíma og lengst af formaður Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, en einnig forstjóri Olíuverslunar Íslands og fyrsti formaður Sósíalistaflokksins. Hann var einnig öflugur bókasafnari en margar bækur hans voru komnar úr eigu foreldra hans Valdimars Ásmundssonar ritstjóra og Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, sem lengi var formaður Kvenréttindafélags Íslands.
Héðinn lést árið 1948. Bókasafnið var stofnað á 50 ára afmæli Verkamannafélagsins Dagsbrúnar þann 26. janúar 1956, en þá gaf frú Guðrún Pálsdóttir, ekkja Héðins félaginu bókasafn manns síns til minningar um hann (sjá mynd). Bókasafnið var opnað í félagsheimili múrara og rafvirkja, að Freyjugötu 27 í Reykjavík, þann 10. desember 1960 en þá voru 3415 bækur í safninu. Eftir það var safnið til húsa á ýmsum stöðum í Reykjavík, lengst af í húsakynnum Dagsbrúnar við Lindargötu. Safninu var frá upphafi sýndur verðugur sómi og natnir bókaverðir gerðu spjaldskrá um safnkostinn að þeirra tíma hætti. Safnið var opið félagsmönnum Dagsbrúnar sem og öðrum til skoðunar og afnota um árabil. Á endanum lenti það þó á hrakhólum með húsnæði og endaði í kössum og geymslu eftir að Dagsbrún, sem þá var orðin Efling stéttarfélag, flutti að Sæbraut í Reykjavík undir lok 20. aldar.
27. nóvember 2003 gerðu ReykjavíkurAkademían og Efling með sér samkomulag sem fól í sér að safnið verður áfram í eigu Eflingar, en ReykjavíkurAkademían annast daglegan rekstur þess og vörslu. Þann dag opnaði safnið dyr sínar fræðimönnum og almenningi í húsnæði ReykjavíkurAkademíunnar við Hringbraut í Reykjavík. Um 2011 var skipulagningu og tölvuskráningu safnsins lokið. Í lok árs 2014 flutti safnið ásamt ReykjavíkurAkademíunni í nýtt húsnæði í Þórunnartún 2.
Meginstofn safnsins hefur verið fenginn að gjöf, stundum frá höfundum eða útgáfufélögum en aðallega frá einstaklingum. Stærsta gjöfin kom frá Þóri Daníelssyni (sjá mynd), sem var sjálfur bókavörður safnsins frá 1973 til 1998, eftir andlát hans árið 2008. Meðal annarra einstaklinga sem hafa gefið safninu stórar gjafir í gegnum árin eru Geir Jónasson, Ásta Björnsdóttir ekkja Þorsteins Finnbjarnarsonar, Eyjólfur R. Árnason, Runólfur Björnsson, Guðrún Bjarnadóttir, Skúli Skúlasson og Ágústa Jónsdóttir, Ásgeir Pétursson og Dýrleif Árnadóttir, dánarbú Sverris Kristjánssonar, Eðvarð Sigurðsson, Selma Hannesdóttir og Þorvaldur Þorvaldsson.