Dagsbrúnarfyrirlestrar

Á hverju ári síðan 2003 hafa svokallaðir Dagsbrúnarfyrirlestrar verið haldnir á vegum Bókasafns Dagsbrúnar. Hér á eftir er yfirlit yfir alla Dagsbrúnarfyrirlestra og efni þeirra, sem tengist ávallt verkalýðshreyfingunni.

 
17. febrúar 2022

Staða innflytjenda á Íslandi: fjárhagur, húsnæði og heilsa

Fimmtudaginn 17. febrúar 2022 hélt Kristín Heba Gísladóttir framkvæmdastjóri Vörðu – rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins fyrirlestur um fjárhagsstöðu innflytjenda á Íslandi stöðu á húsnæðismarkaði og heilsu sem byggir á nýlegri könnuna á stöðu launafólks meðal félaga í aðildarfélögum ASÍ og BSRB sem birtist í skýrslunni:  Staða launafólks á Íslandi. Niðurstöður spurningakönnunar meðal félaga í aðildarfélögum ASÍ og BSRB.

Upptaka af fyrirlestrinum

 
10. mars 2020.
Maríanna Traustadóttir, sérfræðingur hjá ASÍ í jafnréttis og umhverfismálum.
"Verkalýðshreyfingin, alþjóðasamstaða, réttindi launafólks og jafnrétti kynjanna." (Var frestað og að lokum felldur niður vegna ástandsins í samfélaginu)

Útdráttur: „Á tímum þrenginga er alþjóðleg samstaða launafólks mikilvæg. Hlutverk Alþjóðavinnumálastofnunarinnar – ILO  og áherslur hennar skipta máli og hafa áhrif á mótun framtíðar á vinnumarkaði. ILO er eina alþjóðastofnun Sameinuðu þjóðanna sem lýtur ekki aðeins stjórn ríkisstjórnanna heldur einnig launafólks og atvinnurekenda og minnir því sífellt á rétt verkafólks sem og almenn mannréttindi. Hvernig endurspeglast jafnréttiáherslur ILO á íslenskum vinnumarkað? Hvað getur Ísland lagt til í baráttuna um jafnrétti fyrir alla?

ILO hefur lagt sérstaka áherslu á sanngjörn umskipti, „just transition“ í kjölfar loftlagsbreytinga og áhrif þeirra á vinnumarkaðinn. Það hlýtur að vera á ábyrgð íslenskrar verkalýðshreyfingar að tryggð verði sanngjörn umskipti í þágu jafnréttis.„

 
7. mars 2019
Svanur Kristjánsson, stjórnmálafræðingur
"Róttæk og öflug verkalýðshreyfing eða gönuhlaup nýrrar forystu?"

Frá Þjóðarsátt 1990 ríkti umtalsverð sátt um starfsemi íslenskra verkalýðsfélaga. Sú sátt er núna í

uppnámi. Á opinberum vettvangi eru sagðar tvær sögur:

  1. Íslenskt verkafólk er að rísa upp og kasta af sér hlekkjum lágra launa, forstjóravalds og fjandsamlegs ríkisvalds sem fyrst og síðast gætir hagsmuna þeirra ríku og voldugu. Ný forysta mun leiða sókn íslensks verkalýðs til nýs þjóðfélags þar sem hagur vinnandi fólks, kvenna sem karla, er í öndvegi. Verkföll þjóna tviþættum tilgangi: Knýja atvinnurekendur til að ganga að sanngjörnum kröfum verkafólks og eru vinnandi fólki til valdeflingar og baráttugleði. Róttæk og öflug verkalýðshreyfing verður að veruleika.
  1. Lífskjör á Íslandi eru almennt mjög góð. Verkalýðsbarátta er hins vegar átumein í þjóðfélaginu; skapar sundrungu í stað samheldni. “Vinnuveitendur” eru drifkraftur hagvaxtar; kaup og kjör “launþega” ætti að miðast við greiðslugetu atvinnuveganna. Verkalýðsfélög eiga ekki hafa nein afskipti af stjórnmálum eða þjóðmálum yfirleitt. Nýtt forystufólk verkalýðsfélaganna eru ofstækisfullir grillufangarar fastir í úreltum hugmyndum um stéttabaráttu og sósíalisma sem ætíð leiða til fátæktar og örbirgðar. Verkföll eru úrelt baráttutæki. Gönuhlaup nýrrar verkalýðsforystu mun leiða hörmungar yfir íslenskt verkafólk og þjóðfélagið allt.

    Í fyrirlestrinum var gerð grein fyrir sögulegum uppruna frásagnanna tveggja. Tekið skal fram að fyrirlesari er ekki aðdáandi þeirrar söguskoðunar að sannleikurinn sé ætíð afstæður. Því verður reynt að meta fræðilega stöðu og framtíðarhorfur íslenskrar verkalýðshreyfingar á umbrotatímum.

 
Í tengslum við fyrirlesturinn fékk Svanur 4. maí 2017 birta grein í Kjarnanum með sama heiti og fyrirlesturinn.
 
 
Dagsbrúnarfyrirlesturinn 2018
Upplýsingar koma síðar
 
 
Dagsbrúnarfyrirlesturinn 2017
Upplýsingar koma síðar
 
 
26. janúar 2016
Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur
"Vort daglegt brauð" : Alþýðubrauðgerðin í Reykjavík

Í tilefni af 60 ára afmæli Bókasafns Dagsbrúnar þann 26. janúar 2016 var hinn árlegi Dagsbrúnarfyrirlestur haldinn. Í þetta skiptið fjallaði Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur um merka fyrirtækið, Alþýðubrauðgerðina í Reykjavík sem stofnað var af verkamönnum og sjómönnum í Reykjavík árið 1917 til að lækka verð á brauði og rekið af alþýðuhreyfingunni allt til ársins 1977. Um langan tíma var Alþýðubrauðgerðin stærsta og öflugasta brauðgerðarhús höfuðstaðarins og einn helsti fjárhagslegi bakhjarl Alþýðuflokksins og Alþýðusambandsins og stofnana þeim tengdum, svo sem Alþýðublaðsins. Alþýðubrauðgerðir voru líka reknar í Hafnarfirði, á Akranesi og í Keflavík.

Guðjón Friðriksson er meðal þekktustu sagnfræðinga landsins. Hann hefur starfað sem rithöfundur og sagnfræðingur síðan 1980 og gefið út fjölda bóka, m.a. um sögu Reykjavíkur, ævisögur Jónasar frá Hriflu, Einars Benediktssonar, Jóns Sigurðssonar forseta og Hannesar Hafstein, um forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar og sögu Kaupmannahafnar sem höfuðborgar Íslands.

 
 
12. nóvember 2014
Sumarliði R. Ísleifsson, sagnfræðingur
Saga Alþýðusambands Íslands

Sumarliði fjallaði um tilgang þess að skrifa sögu verkalýðshreyfingarinnar og lýsti því hvernig verkið Saga Alþýðusambands Íslands er byggt upp. Hann fjallaði um nokkur helstu þemu sem birtast í verkinu, helstu viðfangsefni verkalýðshreyfingarinnar og hvernig henni vegnaði í baráttu sinni. Þá ræddi hann um skipulag hennar, hvernig til tókst við uppbyggingu hreyfingarinnar og einnig um sérkenni hreyfingarinnar samanborið við nágrannalöndin. Sumarliði hefur sinnt rannsóknum á ímyndum Íslands, en auk þess hefur hann fjallað um sögu atvinnulífs, stjórnmála og verkalýðshreyfingar á 20. öld. Hann skrifaði sögu Alþýðusam­bands Íslands sem kom út í tveimur bindum á síðasta ári. Í vor sem leið lauk hann doktorsprófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands.

 

21. nóvember 2013
Guðný Hallgrímsdóttir, sagnfræðingur
Sagan af Guðrúnu Ketilsdóttur: einsögurannsókn á ævi 18. aldar vinnukonu.

Guðný fjallaði um nýútkomna bók sína, Sagan af Guðrúnu Ketilsdóttur: einsögurannsókn á ævi 18. aldar vinnukonu, en sagan sem þar er sögð byggist meðal annars á sjálfsævisögubroti sem varðveist hefur og ber titilinn Ævisaga Guðrúnar Ketilsdóttur. Guðrún fæddist árið 1759 og er saga hennar líklega elsta varðveitta sjálfsævisaga íslenskrar alþýðukonu – vinnukonu frá 18. öld.  Í bókinni er fjallað um líf þessar merkilegu alþýðukonu og hvernig hún náði, þrátt fyrir afar þrönga stéttarstöðu sína, að hasla sér völl í erfiðu árferði móðurharðindanna.  Döpur endalok ævi hennar draga fram hið harmsögulega í lífi þúsunda Íslendinga á þessum tíma. Þar sem lítið er til af heimildum um alþýðukonur frá 18. og 19. öld þá er þessi saga mjög þarft innlegg í umræður um konur fyrr á tímum.


8. nóvember 2012
Þorleifur Friðriksson, sagnfræðingur
Dagar vinnu og vona: Saga Verkamannafélagsins Dagsbrúnar í kreppu og köldu stríði.

Þorleifur fjallaði um verkið sem er sjálfstætt framhald af bókinni Við brún nýs dags sem kom út árið 2007, og líkt og þar eru hér fetaðar nýjar brautir í íslenskri samtímasögu, hvorki hefðbundin félagssaga né strípuð fræðileg greining. Hún er enn síður saga af hetjum og fórnarlömbum. Verkamannafélagið Dagsbrún er leiðarhnoða um samfélag alþýðufólks. Með aðstoð félagsins fetum við okkur um umhverfi og hugmyndaheim samfélags sem einu sinni var og dýpkum jafnframt skilning okkar á því sem er. Verkið er tilraun til þess að skoða viðfang allrar sagnfræði, manneskjuna sjálfa, í umhverfi sem byggt er á hlutlægri sagnfræðilegri rannsókn.

8. desember 2011
Sigurður Pétursson, sagnfræðingur
Saga verkalýðshreyfingar á Vestfjörðum 1890-1930

Sigurður fjallaði um þá umbyltingu viðhorfa og aðstæðna sem fylgdu í kjölfar nýrra þjóðfélagsaðstæðna um aldamótin 1900. Myndun verkalýðsfélaga og pólitíska forystu jafnaðarmanna á Ísafirði leiddi til fyrsta rauða meirihlutans í bæjarstjórn á Íslandi árið 1921. Hann fjallaði einnig um uppbyggingu verkalýðshreyfingar, pólitísk átök og sterka stöðu jafnaðarmanna á Vestfjörðum. Fyrirlestur Sigurðar byggðist á þá nýútkominni bók sem nefnist Vindur í seglum og er fyrsta bindi sögu verkalýðshreyfingarinnar á Vestfjörðum.

11. nóvember 2010
Ragnheiður Kristjánsdóttir, sagnfræðingur
Fullgildir borgarar? Um nýtt fólk í stjórnmálaumræðunni fram að lýðveldisstofnun.

Fyrirlestur Ragnheiðar byggðist á bók hennar og doktorsritgerð, Nýtt fólk: Þjóðerni og íslensk verkalýðsstjórnmál 1901-1944. Eitt helsta verkefni alþjóðlegrar verkalýðshreyfingar var að berjast fyrir því að skjólstæðingar hennar teldust fullgildir borgarar. Í fyrirlestrinum verða færð rök fyrir því að á Íslandi hafi þessi þáttur verkalýðsbaráttunnar ekki síst falist í tilraunum til að endurmóta íslenska þjóðernisstefnu. Sýnt verður fram á að verkalýðshreyfingin hafi allt frá upphafi ráðist gegn þeim þáttum hennar sem samrýmdust illa sósíalískri stjórnmálaorðræðu, reynt að endursegja þjóðarsöguna, skilgreina upp á nýtt og á sínum forsendum grunnþætti íslenskrar þjóðernissjálfsmyndar. Jafnframt verða borin saman áhrif þjóðernisstefnu á stjórnmálaarma verkalýðshreyfingarinnar, Alþýðuflokkinn annars vegar og Kommúnistaflokkinn (og síðar Sósíalistaflokkinn) hins vegar.

15. maí 2009
Málþing: „Héðinn og húsaskjólið“

18. maí 2009 voru 80 ár liðin síðan frumvarp um verkamannabústaði var samþykkt á Alþingi, en formaður Dagsbrúnar, Héðinn Valdimarsson, var flutningsmaður frumvarpsins. Á málþinginu voru 6 fyrirlesarar og pallborðsumræða. Titlar fyrirlestrannar voru Verkalýðshreyfingin og húsnæðismálin (Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ); Frá Verkó til viðbótarlána – Tilurð og þróun félagslega húsnæðiskerfisins (Jón Rúnar Sveinsson, félagsfræðingur, ReykjavíkurAkademíunni); Upphaf og þróun verkamannabústaðanna – Sögulegt yfirlit (Sigurður E. Guðmundsson, sagnfræðingur og fyrrverandi framkvæmdastjóri Húsnæðisstofnunar ríkisins); Stórir draumar um íbúð alþýðumannsins – þáttur félagslegra íbúðabygginga í íslenskri húsagerðarsögu á 20. öld (Pétur H. Ármannsson, arkitekt); Uppbygging og þróun húsnæðisaðstoðar í Reykjavík síðustu ár (Jórunn Ósk Frímannsdóttir, formaður Velferðarráðs Reykjavíkurborgar); Hlutverk Íbúðalánasjóðs (Guðmundur Bjarnason, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs).

30. apríl 2008
Þorgrímur Gestsson, blaðamaður og rithöfundur
Öryggissjóður verkalýðsins – sagnfræði eða rannsóknarblaðamennska

Þorgrímur fjallaði m.a. um sagnfræðileg vinnubrögð og mismunandi aðferðir blaðamanns annars vegar og sagnfræðings hinsvegar þegar skrifað er um sögu og þá sögu verkalýðshreyfingarinnar og sérstaklega samband atvinnuleysistryggingasjóðs og verkalýðshreyfingarinnar og hvernig ábyrgð á atvinnuleysisbótum hefur færst til sveitarfélaganna.

Hörður Zóphoníasson, skólastjóri
Aldarsaga Hlífar

Hörður hélt erindi um þá nýútkomna bók sína og Ólafs Kristjánssonar, Verkamannafélagið Hlíf 100 ára (Hafnarfjörður 2007).

29. september 2007
Þorleifur Friðriksson, sagnfræðingur
Um og fyrir: Að skrifa sögu um fortíð fyrir samtíð.

Þorleifur fjallaði um tilurð ritsins Við brún nýs dags: Saga Verkamannafélagsins Dagsbrúnar 1906–1930, efnistök og baráttu við heimildir.

23. september 2006
Ráðstefna í tilefni 100 ára afmælis Verkamannafélagsins Dagsbrúnar

Á ráðstefnunni voru 7 fyrirlestrar og pallborðsumræða. Fyrirlestrarnir eru birtir í bókinni Samfélagsleg áhrif verkalýðshreyfingarinnar á 20. öld: framtíðarsýn á 21. öldinni (ritstjórar Sumarliði R. Ísleifsson og Þórunn Sigurðardóttir), sem kom út á vegum Eflingar og ReykjavíkurAkademíunnar árið 2007.

19. nóvember 2005
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar
Íslenskt launafólk á tímum alþjóðavæðingar

Ingibjörg fjallaði um hnattvæðinguna og þróun hennar og um efnahagslegt og pólitískt vald alþjóðlegra viðskiptablokka á tímum hnattvæðingar og áhrif þeirra á stefnumótun og umræðu á vettvangi stjórnmálanna. Hún ræddi um nýfrjálshyggjuna sem afsprengi viðskiptalegra hagsmuna stórfyrirtækjanna og hvernig hún hefur vegið að jöfnuði og jafnrétti milli þjóða og innan þjóða. Einnig fjallaði hún um hvernig hægt sé að bregðast við þessari þróun og nýta hnattvæðinguna í þágu launafólks og þeirra sem eiga undir högg að sækja í heiminum í dag.

27. nóvember 2004
Gylfi Arinbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ
Siðferði og samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja

Samkvæmt frétt í Morgunblaðinu sagði Gylfi: „skilgreina þarf betur samfélagslega ábyrgð fyrirtækja, jafnt félagslega, efnahagslega og umhverfislega“ og „líta þurfi til hlutverks velferðarkerfisins gagnvart þeim einstaklingum sem fara halloka í hagræðingaraðgerðum."

27. nóvember 2003
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands

Ávarp við afhendingu sögufrægs bókasafns Verkalýðsfélagsins Dagsbrúnar ReykjavíkurAkademíunni til varðveislu og afnota.
Heildartexta ávarpsins má finna hér.

 

WordPress theme: Kippis 1.15